• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
18
Des

Launafólk getur orðið af 4 milljörðum ef kjarasamningar dragast um einn mánuð!

Það er óhætt að segja að það nánast þurfi kraftaverk til að hægt verði að ganga frá kjarasamningi fyrir áramót, enda eru núna einungis 5 virkir vinnudagar þar til kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði rennur út.

Það er í raun og veru sorglegt í ljósi þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa talað um að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við kjarasamningsgerð þannig að nýr kjarasamningur taki við af þeim gamla. 

Eins og áður sagði eru engar líkur á að svo verði enda ber gríðarlega mikið í milli hjá samningsaðilum þótt vissulega sé erfitt að slá föstu hversu mikið enda hafa SA ekki viljað svara spurningum um hvert svigrúm til launahækkana sé og einnig hver sé afstaða þeirra til launaliðar í kröfugerð SGS.

Hins vegar liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins vilja umturna vinnufyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði sem gengur út á að lengja dagvinnutímabilið þannig að dagvinna sé frá 06:00 til 19:00 eða í 13 tíma á dag. Einnig vilja SA að kaffitímar verði keyptir sem þýðir að dagvinna verður ekki 173,33 tímar í mánuði heldur 160. En þessa styttingu á launafólk að kaupa fullu verði þannig að það eigi ekki rétt á kaffitímum. Þeir vilja einnig að hægt verði að færa dagvinnutíma á milli mánaða jafnt á milli ára. Þetta vilja SA menn gera til að koma til móts við kröfu okkar um að dagvinnulaun hækki umtalsvert. Þetta þýðir á mannamáli að launafólk á að kaupa sína launahækkun að langstærstum hluta sjálft með því að hella á milli yfirvinnunnar og dagvinnunnar.

Þessum hugmyndum hefur Starfsgreinasamband Íslands hafnað alfarið sem þýðir að viðræður eru nánast á byrjunarreit og það þegar einungis fimm virkir vinnudagar eru eftir þar til samningarnir renna út. Þessu til viðbótar liggja fyrir umtalsverðar kröfur á hendur stjórnvöldum eins og t.d. þjóðarátak í húsnæðismálum, að létta skattbyrði af lág-og millitekjuhópum, sem og að taka á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Að ógleymdri kröfu um að launafólk fái að auka hluta samtryggingar í lífeyrissjóðum í frjálsa séreign sem hægt verði að nota til niðurgreiðslu á fasteignalánum sem og til uppsöfnunar á útborgun í húseign.

Í ljósi alls þessa þá vildu formenn sjö aðildarfélaga SGS vísa deilunni strax til ríkissáttasemjara á formannafundi SGS sem haldinn var á síðasta föstudag en því miður voru ellefu formenn sem vildu ekki gera það strax og töldu það ekki tímabært. Þessi afstaða fannst formanni VLFA óskiljanleg því það liggur fyrir að samningurinn er að renna út og himinn og haf er í raun á milli samningsaðila.

Þegar þessi afstaða formannanna ellefu lá fyrir þá lagði formaður VLFA aðra tillögu fram sem gekk út á að fela formanni SGS að hringja í framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og gera honum tilboð sem gekk út á að SA myndi viðurkenna skriflega að kjarasamningshækkanir myndu gilda afturvirkt frá 1. janúar 2019 og ef SA myndi ekki gangast við því myndi SGS vísa deilunni strax til Ríkissáttasemjara.

Hafi formaður verið undrandi og gapandi yfir að fyrri tillagan hafi ekki verið samþykkt, þá missti hann andlitið þegar sömu formenn felldu tillöguna um að setja SA mönnum þessa afarkosti að samningurinn gilti afturvirkt frá 1. janúar ellegar vísa til sáttasemjara.

Rétt er að geta þess að ef kjarasamningsgerð dregst í einn mánuð þá verður launafólk á hinum almenna vinnumarkaði af um 4 milljörðum. Já takið eftir með hverjum mánuði sem það dregst að semja þá verða félagsmenn okkar af 4 milljörðum og því óskiljanlegt að stilla SA ekki uppvið vegg með þetta.

Það er ljóst að það hefur myndast töluverð gjá á milli formanna sem vildu vísa deilunni til sáttasemjara og þeirra sem ekki vildu það en rétt er að geta þess að þessir sjö formenn eru með um 66% félagsmanna á bakvið sig innan SGS.

Þetta er svo sem ekki eini ágreiningurinn sem hefur verið innan SGS heldur hafa Verkalýðsfélag Akraness og Efling lagt gríðarlega áherslu á að mynduð verði sameiginleg samninganefnd með VR enda eru kröfugerðir SGS og VR í 99% tilfella eins. Rétt er að geta þess að bæði VLFA og Efling gerðu þetta atriði sem eitt af skilyrðum fyrir því að samningsumboðið yrði veitt SGS.

En því miður vildi meirihluti formanna SGS alls ekki mynda sameiginlega samninganefnd með VR þrátt fyrir að bæði VLFA og Efling legðu mikla áherslu á það enda er það staðföst trú þessara félaga að slíkt myndi styrkja samningsstöðu og samtakamátt okkar verulega. Hins vegar var meirihluti formanna tilbúinn að vera í samstarfi við VR en ekki eins og áður sagði með sameiginlega samninganefnd. En eins og áður sagði þá hefði það ekki bara styrkt samtakamátt okkar heldur einnig sent skýr skilaboð um að þessi félög muni starfa þétt saman ef til átaka kemur á vinnumarkaði.

Þessi niðurstaða hefur valdið formönnum Eflingar og VLFA verulegum vonbrigðum en formenn þessara félaga hafa ætíð reynt að brjóta ekki samstöðuna. En eftir þessa atburðarás á síðasta föstudag um að vilja ekki vísa deilunni til sáttasemjara þá eru allt eins líkur á því að Verkalýðsfélag Akraness, Efling og hugsanlega fleiri félög innan SGS muni afturkalla umboð sitt frá SGS.

Ef til þess kemur er næsta víst að þessi félög munu mynda þétt bandalag með VR í komandi kjaraviðræðum en þessi félög mynda um eða yfir 50% af félögum innan ASÍ.

Hvað muni gerast mun væntanlega skýrast á morgun, en þá mun t.d. stjórn Eflingar koma saman til fundar þar sem þessi mál verða væntanlega öll á dagskrá.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image