• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
20
Nóv

Forsetateymi ASÍ fundaði með seðlabankastjóra

Eins og allir vita þá er eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar, heimilanna, fyrirtækja og launafólks alls að tekið sé á verðtryggingu og okurvöxtum fjármálakerfisins. En rétt er að geta þess að bæði í kröfugerð Starfsgreinasambandsins og VR er kveðið á um að vextir þurfi að lækka og verðtrygging verði afnumin sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Það liggur t.d. fyrir að verkalýðshreyfingin hefur m.a. gagnrýnt Seðlabankann harðlega fyrir að hafa hækkað stýrivextina um 0,25% í síðustu stýrivaxtaákvörðun og nema þeir núna 4,50% sem er mjög hátt miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við.

Á þessari forsendu m.a. óskaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri eftir að funda með forsetateymi ASÍ og var sá fundur haldinn í gær. Á þessum fundi gagnrýndi formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti varaforseti ASÍ harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans og kom fram í máli hans að þessi ákvörðun væri alls ekki til þess fallin að auðvelda gerð nýs kjarasamnings.

1. varaforseti gagnrýndi harðlega þá hávaxtastefnu sem ríkir hér á landi en það liggur fyrir að íslensk heimili eru að greiða uppundir 3% hærri raunvexti af húsnæðislánum miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. En það þýðir að íslensk heimili sem skulda um 1900 milljarða eru að greiða um 66 milljörðum meira í vaxtakostnað á hverju ári miðað við þau vaxtakjör sem bjóðast t.d. á Norðurlöndunum. Hann benti seðlabankastjóra einnig á að af 35 milljóna húsnæðisláni væru neytendur að greiða á bilinu 70 til 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við þau lönd sem við erum að bera okkur saman við.

1. varaforseti spurði hvað þyrfti að koma til svo að hægt yrði að lækka vexti til samræmis við það sem gerist t.d. á Norðurlöndunum og nefndi hann sem dæmi að þegar gengið var frá kjarasamningum 2015 hafi stýrivextir verið 4,25% en seðlabankinn hafi hækkað þá fljótlega í þremur áföngum upp í 5%. 1. varaforseti vildi fá svör við þessu frá seðlabankastjóra því frá kjarasamningum 2015 hafi verðbólgan verið langt undir neðri vikmörkum seðlabankans sem er 2,5% og ef húsnæðisliðurinn er tekinn út var bullandi verðhjöðnun allan samningstímann en þrátt fyrir þessa stöðu hafi Seðlabankinn ekki séð ástæðu til að lækka vextina sem neinu næmi.

Hann fór einnig yfir það að þessar stýrivaxtahækkanir séu alls ekki að virka sem skyldi enda liggur fyrir að stór hluti verðtryggðra skulda heimilanna eru með fasta vexti en hinsvegar bitnar þetta mest á unga fólkinu sem er að berjast við að kaupa sér sína fyrstu eign. Hann nefndi það einnig að það eina sem þessar vaxtahækkanir gerðu væri að færa fé frá þeim skuldsettu yfir til fjármálakerfisins sem og fjármagnseigenda.

Svör seðlabankastjóra voru afar rýr og byggjast á nákvæmlega sömu svörum og fram koma í rökstuðningi þegar ákvarðanir um stýrivaxtahækkanir eru teknar.  Hann sagði einnig að síðasta stýrivaxtahækkun uppá 0,25% væri gerð fyrir lágtekjufólk til að vernda það fyrir þeim verðbólguþrýstingi sem nú væri komin upp.  Þessum rökum mótmælti 1. varaforseti harðlega  en varaforseti kom öllum sínum áherslum vel á framfæri og ítrekaði að lækkun vaxta og afnám verðtryggingar sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu séu eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar og heimilanna og ekkert verður gefið eftir í þeirri baráttu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image