• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Nov

SGS fundaði með Samtökum atvinnulífsins

Á síðasta föstudag kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman til samningafundar með Samtökum atvinnulífsins en nú er farið að styttast illilega í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lausir en það er um næstu áramót eins og flestir vita.

Á þessum fundi gerðist afar lítið en formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði gríðarlega áherslu á að núna myndu samningsaðilar spýta verulega í lófana og funda jafnt og þétt til að reyna að ná samningum.

Formaður VLFA fór yfir að þegar ákveðið var að segja ekki upp samningum á formannafundi ASÍ sem haldinn var 28. febrúar þrátt fyrir að grófur forsendubrestur hafi átt sér stað hafi samningsaðilar talað um að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð og hefja strax vinnu að nýjum kjarasamningi. Það hefur hins vegar ekki gerst þrátt fyrir að forsvarsmenn SA hafi nefnt mikilvægi þess að byrja viðræður að nýjum samningi 1. maí og því hljómar allt tal um öguð og vönduð vinnubrögð afar illa í eyrum formanns VLFA.

Formaður VLFA nefndi sem dæmi að SGS hafi lagt fram kröfugerð sína fyrir 5 vikum síðan og ekkert hafi heyrst eða gerst sem heitið getur allan þann tíma. Því lagði formaður VLFA til og var það samþykkt að fundað yrði stíft fram til 10. desember og þá ætti að vera komið í ljós hvort samningsaðilar nái saman eða séu í það minnsta að nálgast hvorn annan. Ef það liggur fyrir að SA og SGS séu langt frá hvoru öðru hvað samningsvilja varðar er ljóst að málinu verður vísað til ríkissáttasemjara um miðjan desember og allt eins líklegt að undirbúningur að átökum hefjist ef ekkert gerist hjá sáttasemjara.

Það er allavega morgunljóst að vinnubrögð eins og hafa tíðkast þar sem menn dútla og gaufa við samningsgerðina er liðin tíð og því mikilvægt að reyna til 10. desember hvort hægt sé að ná saman eða ekki enda telur formaður VLFA það ekkert vera ýkja flókið að sjá hvort einhvern samningsvilja sé að finna af hálfu atvinnurekenda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image