• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Nov

Níðst á ungu fólki með húsnæðisvöxtum

Það er engum blöðum um það að fletta að það er ákall frá alþýðunni og íslenskum heimilum að tekið verði á okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum í komandi kjaraviðræðum við stjórnvöld. Það er ákall um róttækar kerfisbreytingar þar sem kallað verði eftir því að stjórnvöld taki hagsmuni heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. Fjármálaelítu sem er að mergsjúga neytendur með okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum.

Það leituðu til félagsins ung hjón sem eiga tvö börn og eitt á leiðinni, en þau áttu sér þann draum að komast út af leigumarkaðnum vegna þess að leigan var nokkuð dýr eða 180 þúsund á mánuði og einnig leið þeim ekki vel vegna þess óöryggis sem fylgir því að vera á leigumarkaðnum.

Þau tjáðu mér að þau væru búin að kaupa þriggja herberja íbúð í tvíbýli og hafi fengið hana á 28,9 milljónir. Þau höfðu verið búin að safna rétt tæpum 4 milljónum sem þau hefðu notað sem útborgun í umrædda fasteign. Það þýddi að þau þurftu að taka 24,8 milljónir að láni hjá einum af viðskiptabönkunum þremur.

En hvernig skyldu nú lánakjörin hafa verið sem þessu unga fólki stóð til boða? Jú þrátt fyrir að hafa greitt út um 4 milljónir í útborgun þurftu þau að taka þrjú lán hjá bankanum eða með öðrum orðum þessum 24,8 milljónum var skipt niður á þrjú lán sem skiptast með eftirfarandi hætti:

Fyrsta lánið var 16,3 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára með breytilegum vöxtum upp á 3,65%

Annað lánið var 6,5 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 25 ára með breytilegum vöxtum uppá 4,75%

Þriðja lánið var uppá tæpar 2 milljónir óverðtryggt til 10 ára með breytilegum vöxtum uppá 6,75%

Hugsið ykkur, þessum ungu hjónum er boðið upp á verðtryggða breytilega vexti frá 3,65% uppí 4,75% og síðan óverðtryggða vexti sem nema tæpum 7% og það á sama tíma og neytendum í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við standa til boða vextir frá 0,5% uppí 2,5% óverðtryggðir!

Hugsið ykkur líka að þessi ungu hjón munu ekki gera neitt annað en að þurfa að taka sjálfvirkt lán í hverjum mánuði næstu 25 árin, vegna þess að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán gera ekkert annað en að hækka fyrstu 25 árin!

Munum líka að sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar sem skilaði áliti í janúar 2014 sagði að 40 ára jafngreiðslulán væri baneitraður kokteill sem yrði að banna tafarlaust! Samt eru þessi lán enn við lýði og stjórnvöld horfa aðgerðalaus á þegar verið er að níðast og vaxtapína unga fólkið okkar sem og alla neytendur.

Svo talar fólk sem vill láta taka sig alvarlega í íslensku samfélagi um að vextir hafi aldrei verið lægri á Íslandi en gleyma að taka það með í reikninginn að ef unga fólkið á ekki fyrir útborgun sem dekkar 65 til 70% af fastamati þá þarf það að taka svokölluð viðbótarlán sem bera miklu hærri vexti en þá lægstu sem standa til boða.

Það er svo dapurt og sorglegt hvernig við sem samfélag látum það átölulaust hvernig níðst er á unga fólkinu okkar og reyndar á öllum neytendum á húsnæðismarkaði.

Að stjórnvöld, stjórnmálamenn og ég tala nú ekki um verkalýðshreyfinguna skuli taka þátt í því að horfa aðgerðalaus á þetta skefjalausa ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola þegar kemur að okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum fjármálakerfisins er óskiljanlegt með öllu.

Formaður VLFA hefur sagt og segir það enn og aftur að verkalýðshreyfingin verður að láta kné fylgja kviði við að krefja stjórnvöld um að taka stöðu með neytendum og heimilunum framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar.

Það er mikilvægt að allir átti sig á því að við Íslendingar erum að greiða 3 til 3,5% hærri raunvexti ár hvert sem þýðir að við erum að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað á hverju ári miðað við þá vexti sem neytendur á Norðurlöndunum standa til boða.

Það er ákall um að gerðar verði róttækar kerfisbreytingar íslenskri alþýðu og heimilum til hagsbóta.

Munum að okurvextir, verðtrygging og að húsnæðisliður sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta, allt sem til þarf er kjarkur vilji og þor!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image