• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
28
Okt

Formaður VLFA kosinn 1. varaforseti ASÍ!

Það er morgunljóst að gríðarlegar breytingar eru að eiga sér stað í íslenskri verkalýðshreyfingu en á þingi ASÍ fyrir helgina var formaður Verkalýðsfélags Akraness kosinn fyrsti varaforseti ASÍ.

Hver hefði trúað að slíkt ætti eftir að gerast en hann hefur verið mjög gagnrýninn á æðstu forystuna á liðnum árum. En með þeim breytingum sem hafa átt sér stað á liðnum misserum eins og með kjöri Ragnars Þór til formanns VR og núna síðast með kjöri Sólveigar Önnu sem formanns Eflingar hafa pólarnir í íslenskri verkalýðshreyfingu gjörbreyst. Gömlu valdaklíkunni í forystu ASÍ hefur algerlega verið hafnað og ný forysta hefur tekið við.

Það er rétt að rifja upp að formaður VLFA hefur sagt á liðnum árum að meðan gamla valdaklíkan var við völd í forystu ASÍ voru meiri líkur á að ná kjöri sem forseti Norður Kóreu en einn af forsetum ASÍ.

Kosið var á milli formanns Verkalýðsfélags Akraness Vil­hjálms Birg­is­sonar og Guð­brands Ein­ars­sonar for­manns Versl­un­ar­manna­fé­lags Suð­ur­nesja en rétt er að geta þess að Guðbrandur er búinn að vera einn af æðstu forystumönnum ASÍ í yfir 10 ár og því var þessi sigur formanns VLFA enn sætari fyrir vikið.

En Vil­hjálmur fékk 171 atkvæði eða 59,8 pró­sent og Guð­brandur fékk 115 eða 40,2 pró­sent. Heild­ar­fjöldi atkvæða var 289, auðir og ógildir seðlar voru 3.

Það að formaður Verkalýðsfélags Akraness sé orðinn 1. varaforseti ASÍ mun gefa félaginu tækifæri til að koma okkar áherslumálum enn frekar á framfæri en eins og allir vita þá hafa okurvextir, afnám verðtryggingar og himinhá þjónustugjöld fjármálakerfisins verið formanni VLFA afar hugleikin á liðnum árum. Það er ljóst að með kjöri hans mun rödd þeirra sem höllustum fæti standa verða enn sterkari og tekið verður af krafti á því að fá stjórnvöld til að taka hagsmuni alþýðunnar og heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar.  Sjá frétt hér

Sjá kosningarræðu formanns hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image