• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
26
Okt

Ræða sem ég flutti á 43. þingi ASÍ

Þingforseti, forseti ASÍ ágætu þingfulltrúar.

Fréttir síðustu daga herma að sést hafi til sérsveitar ríkislögreglustjóra grárrar fyrir járnum bruna með alla ráðamenn þjóðarinnar, fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og frá Seðlabankanum rakleiðis í höfuðstöðvar almannavarna í Skógarhlíðinni. Ástæðan var sú að búið var að hækka áhættustig almannavarna upp í efsta þrep vegna kröfugerðar Starfsgreinasambands Íslands og VR.  

Fréttir herma einnig að öllum stálhurðum í stjórnstöð almannavarna hafi verið skellt aftur og kröfugerðinni varpað upp á skjávarpa þar sem fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Seðlabankans og stjórnvalda hafi gripið um höfuð sér og  horft með angistarsvip á hvern annan þar sem blasti við þeim sú gereyðingarkrafa sem fól í sér að hækka lágmarkslaun á Íslandi dygðu fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út

Heimildir herma að fulltrúi SA hafi í mikilli geðshræringu öskrað hátt og skýrt: „Eru menn virkilega svo ruglaðir að gera kröfu um að fólk geti lifað af laununum sínum?“ Ekki var minni geðshræring hjá fjármálaráðherra á þessum fundi almannavarna þar sem hann ætlaði ekki að trúa því að verið væri að gera kröfu um að létta ætti skattbyrði lágtekjufólks og óttaðist hann innilega að geta ekki haldið áfram á þeirri vegferð sem hann hefur verið á á liðnum árum sem lýtur að því að létta skattbyrði hátekjufólks. Reyndar sturlaðist hann þegar hann sá að krafa var um að hækka fjármagnstekjuskattinn og hafði miklar áhyggjur af því ef það ætti að gera kröfu um að ríkasta eina prósentið greiddi meira til samneyslunnar.

Af þeim aðilum sem voru á þessum fundi var ástandið alvarlegast á seðlabankastjóra en eftir að hann sá kröfugerðina þá ráfaði hann um stjórnstöð almannvarna eins og hann væri hálfvankaður eftir að hafa fengið þungt högg frá Gunnari Nelson. Seðlabankastjóri muldraði í hljóði: „Er þetta fólk virkilega að fara fram á að tekið verði á okurvöxtum fjármálakerfisins og er það svo vitlaust að heimta sambærilegt vaxtastig og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við?“

Niðurstaða þessa fundar í höfuðstöðvum almannavarna var að önnur eins „vá“  hefði ekki steðjað að íslensku þjóðinni frá því að þjóðin óttaðist að Þjóðverjar myndu hernema landið í seinni heimstyrjöldinni. Vildu sumir fundarmenn meina að þessi kröfugerð væri meiri vá heldur en þegar Svarti dauði herjaði á þjóðina á 14. öld.

Fram kom síðan í fundagerðarbók frá þessum fundi að forsætisráðherra prísaði sig sæla yfir því að Ísland væri ennþá í Nató og var henni falið að hafa samband við bandaríska sjóherinn til að taka létta heræfingu hér á landi eins og hann gerði í síðustu viku til að vera klár í alvöru átök ef ræstingarfólk og annað lágtekjufólk vogaði sér að fylgja kröfum sínum eftir um að geta lifað af sínum launum frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

Ágætu félagar.

Það er varla hægt að gera grín að þeim ofsafengnu viðbrögðum sem hafa birst í fjölmiðlum frá því kröfugerðir SGS og VR komu fram en hvað er annað hægt að gera en að brosa að þessum aðilum sem reyna enn og aftur að hræða alþýðuna til hlýðni.

En núna þegar einungis 22 virkir vinnudagar eru þar til  kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir þá mun hræðsluáróðurinn og varnaðarorðin frá lobbíistum og lukkuriturum efnahagslegu forréttindahópanna óma um allt íslenskt samfélag af fullum krafti og þau eru reyndar svo sannarlega byrjuð að heyrast.

Varnaðarorð eins og: „Þið verðið að gera afar hófstillta samninga, það er ekkert svigrúm.“ „Verðbólgan rýkur upp, gengið fellur og stöðugleikinn verður rústir einar!“

Þessari rispuðu plötu hefur ætíð verið skellt á fóninn þegar kemur að því að semja um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði. Því miður eru æði margir sem syngja sönginn um að alþýða þessa lands eigi ein að bera ábyrgð á stöðugleika í íslensku samfélagi.

Það er hins vegar ömurlegt og dapurlegt að ekki skuli heyrast eitt einasta varnaðarorð frá þessum aðilum þegar efri lög samfélagsins og embættismannaelítan raka til sín launahækkunum sem nema frá 300 þúsundum upp í allt að 1,2 milljónum í hækkun á mánaðarlaunum sínum eins og birst hefur í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum. 

Hver man til dæmis ekki eftir því þegar forstjóri N1 fékk hækkun á sínum launum upp á eina milljón á einu bretti eða þegar bankastjóri Landsbankans hækkaði um 1,2 milljón á mánuði.  Hvað sagði ekki bankaráð Landsbankans þegar fjölmiðlar kölluðu eftir útskýringum á þessari gríðarlegri hækkun á launum bankastjórans, jú, svarið var að hér hafi verið um hóflega hækkun að ræða!

Já, launahækkun hjá bankastjóra Landsbankans fyrir nokkrum mánuðum síðan upp á 1,2 milljón var hófleg. Það heyrist aldrei eitt einasta orð frá lobbíistum hinna ríku þegar efri lög samfélagsins moka til sín launahækkunum eins og enginn sé morgundagurinn og þá er nægt svigrúm til og engum stöðugleika ógnað.

Kæru félagar.

Eins og við vitum öll þá hefur Starfsgreinasamband Íslands og félagar okkar í VR lagt fram metnaðarfulla kröfugerð þar sem m.a. er gerð krafa um að lágmarkslaun hækki á þremur árum úr 300.000 krónum í 425.000 krónur.

Einnig kemur fram í þessum kröfugerðum frá SGS og VR að ráðast þurfi í þjóðarátak í húsnæðismálum, létta skattbyrði á lág-og millitekjufólk svo ekki sé talað  um kröfuna um að taka á okurvöxtum, verðtryggingu og taka húsnæðisliðin úr lögum um vexti og verðtryggingu.  

Já kröfugerð SGS og VR byggist á að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert þannig að þau dugi frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að hækka lágmarkslaun umtalsvert, létta skattbyrði, draga út tekjutengingum barna-og vaxtabóta og taka á þeim blóðuga vígvelli sem íslenskur leigumarkaður er orðinn um þessar mundir. Leigumarkaður þar sem græðgin hefur heltekið marga leigusalana og leigufélög.

Það er lýðsheilsumál og skylda okkar að lagfæra kjör okkar félagsmanna sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og við skulum aldrei gleyma að það eru félagsmenn okkar sem taka laun eftir þessum skammarlegu lágu launatöxtum, lág og lægri millitekjuhópar er nauðbeygt að vera á leigumarkaði og eyða stórum hluta ráðstöfunartekna í húsaleigu.

Já kröfugerð SGS og VR byggist á þeirri sanngjörnu og réttlátu kröfu að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi, ekki bara með beinum launahækkunum heldur einnig með aðkomu stjórnvalda eins og áður hefur komið fram.  Við hljótum öll í verkalýðshreyfingunni að vera sammála að það er algjört metnaðarleysi og okkur til skammar að vera með lágmarkslaun sem ekki ná þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðuneytið og Umboðsmaður skuldara hafa gefið út.

Það er ekki bara að algjör samhljómur sé um þessi atriði í kröfugerðum SGS og VR heldur er einnig samhljómur um að samið verði um flata krónutöluhækkun á alla sem ekki taka laun eftir launatöxtum. Við vitum flest að prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi. 

Tökum dæmi: Krafan er að lágmarkslaun hækki um 42.000 kr. 1.janúar 2019 eða um 14%  Nú liggur fyrir samkvæmt Kjarnanum.is að meðallaun forstjóra skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir á mánuði og ef þeir fengu 14% launahækkun þá myndu laun þeirra hækka um 658.000 á mánuði.  Kröfugerð SGS og VR hafnar svona misskiptingu og óréttlæti eins og þetta grófa dæmi sýnir enda gerð karfa um að allir fái sömu krónutöluna.

Munum að prósentur blekkja og það fer enginn og verslar með prósentum í matinn eða greiðir reikninga eða húsaleigu með prósentum.

Kæru þingfulltrúar. Það er ekki hægt að komast hjá því að nefna í þessari ræðu að nú eru 10 ár liðin frá bankahruninu og við munum flest þær skelfilegu hamfarir sem alþýða og heimili þessa lands þurftu að þola í kjölfar hrunsins. Stjórnvöld á hrunárunum sögðust vera í slökkvistarfi en allt slökkvistarfið miðaðist við að slökkva elda í viðskiptabönkunum þremur og í fjármálakerfinu í heild sinni, skítt með heimilin þau máttu mörg hver standa í björtu báli enda liggja fyrir í dag opinberar upplýsingar um að minnsta kosti 10 þúsund íslenskum heimilum hafi verið fórnað á altari fjármálagræðginnar í hruninu.

Það sorglega í þessu öllu saman er að það er ekkert að breytast, enn búa íslensk heimili við okurvexti, verðtryggingu og himinhá þjónustugjöld. Maður spyr sig hver hefði t.d. trúað því að 10 árum eftir að viðskiptabankarnir þrír sem ollu þessum hamförum sem íslensk heimili þurftu að þola séu þeir búnir að skila yfir 750 milljörðum í hagnað frá hruninu.

Ég vil trúa í hjarta mínu að öll íslensk verkalýðshreyfing muni láta kné fylgja kviði við að kalla eftir réttlátara fjármálakerfi í komandi kjarasamningum. Við megum t.d. aldrei láta fortíðarvanda verðtryggðra húsnæðislána verða aftur að framtíðarvanda enda megum við aldrei gleyma því að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á einni nóttu um 400 milljarða!

Við þurfum sem verkalýðshreyfing að spyrja okkur að því hví í ósköpunum við látum það viðgangast að raunvextir á Íslandi séu allt að 3% hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við þurfum líka að spyrja okkur hvort ekki sé kominn tími á að stoppa það af að heimilin þurfi að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað af 30 milljóna húsnæðisláni í hverjum mánuði en heimilin í þeim löndum sem við berum okkur hvað oftast saman við?

Íslensk verkalýðshreyfing verður að standa í lappirnar í komandi kjarasamningum og krefja stjórnvöld um að hagsmunir íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. 

Kæru félagar.

Ég verð að lokum að nefna þá gríðarlegu samstöðu sem náðst hefur innan Starfsgreinasambandsins en í fyrsta skipti í sögu sambandsins hafa öll 19 aðildarfélög SGS sameinast sem eitt sterkt afl fyrir komandi kjarasamninga.

Ég verð einnig að lýsa gríðarlegri ánægju með VR þar sem samhljómur í kröfugerð okkar í SGS er mjög mikill og einnig þeim mikla vilja forystumanna VR að vinna þétt saman í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld. Það er morgunljóst að þessi mikla samstaða skiptir miklu máli og vonandi mun iðnaðarsamfélagið einnig koma með okkur í þessa vegferð og ef það gerist þá yrði það ugglaust í fyrsta skipti sem öll aðildarfélög ASÍ yrðu samstíga í kjaraviðræðum.

Það liggur fyrir að framundan eru gríðarlega erfiðar kjaraviðræður en með samstöðu okkar allra eiga okkur að vera allir vegir færir.

Munum kæru félagar að misskipting,óréttlæti og ójöfnuður eru ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk, sem hægt er að breyta- allt sem til þarf er kjarkur,vilji og samstaða!

Takk fyrir mig.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image