• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Oct

Fyrirtækið Skaginn hf. dæmt í Landsrétti til að greiða félagsmanni VLFA á aðra milljón króna!

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi lögmaður Verkalýðsfélags Akraness fyrirtækinu Skaganum fyrir dómstóla á síðasta ári vegna tveggja félagsmanna sem störfuðu hjá Skaganum. Annað málið laut að ólöglegri uppsögn starfsmanns en hitt málið laut að kjarasamningsbrotum hvað varðaði hvíldartíma og svokallaðan vikulegan frídag.

Þann 22. janúar sl. féll svo dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í báðum málunum þar sem Verkalýðsfélag Akraness vann það mál er laut að ólöglegri uppsögn en Skaganum var gert að greiða starfsmanninum 400 þúsund í uppsagnarfrest ásamt dráttarvöxtum. Einnig var Skaginn dæmdur til að greiða félaginu 400 þúsund í málskostnað.

Seinna málið sem laut að hvíldartímunum og vikulega frídeginum tapaðist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Verkalýðsfélag Akraness ákvað ásamt lögmanni sínum að áfrýja því máli fyrir Landsrétti enda var félagið og lögmaður félagsins algerlega á því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur væri kolrangur enda öll gögn málsins sem staðfestu kjarasamningsbrot Skagans.

Það er skemmst frá því að segja að Landsréttur var algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akranes og lögmanni félagsins, enda var Skaginn dæmdur í dag til að greiða starfsmanninum rétt rúma eina milljón króna ásamt dráttarvöxtum frá 19. febrúar 2017 í vangöldin laun vegna hvíldartíma og vikulegs frídags. Skaginn var einnig dæmdur til að greiða eina milljón í málskostnað til Verkalýðsfélag Akraness.  Sjá dóm Landsréttar frá því í dag hér

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega stolt og ánægð með að bæði málin sem félagið sótti á hendur Skaganum hafi unnist, annað fyrir Héraðsdómi og hitt fyrir Landsrétti.

Með öðrum orðum þá vannst fullnaðarsigur í þessum málum sem hafa skilað samtals tæpum tveimur milljónum til þessara tveggja félagsmanna VLFA og einnig er það ánægjulegt að Skaginn hafi verið dæmdur til að greiða samtals málskostnað upp á 1,4 milljón vegna þessara mála.

Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að verja ætíð með kjafti og klóm ef því er að skipta réttindi okkar félagsmanna og ef félagið telur að verið sé að brjóta á réttindum okkar manna og ekki næst að innheimta það í sátt þá fara slík mál fyrir dómstóla og félagið gefur ekki nokkurn afslátt á kjarasamningsbrotum!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image