• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
11
Okt

Kröfugerð SGS - Það er lýðheilsumál að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa

Nú hefur kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands litið dagsins ljós og það er afar ánægjulegt að allar megináherslur Verkalýðsfélags Akraness náðu fram í endanlegri kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands. Ekki bara er lýtur að launalið kröfugerðarinnar heldur einnig áherslur sem lúta að þeim kröfum sem gera á hendur stjórnvöldum. En eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að Verkalýðsfélag Akraness hefur kallað eftir í sinni kröfugerð að gerðar verið róttækar kerfisbreytingar er lýtur m.a. að okurvöxtum, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. En öll þessi atriði eru inni í kröfugerð SGS og því fagnar formaður VLFA innilega enda hafa þessi brýnu hagsmunamál alþýðunnar og heimilanna verið eitt að aðalbaráttumálum VLFA um langt árabil. Það er og verður krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld taki stöðu með hagsmunum alþýðunnar og íslenskum heimilum og hætti stöðugri hagsmunagæslu fyrir fjármálakerfið á kostnað heimilanna.

Aðalkrafa SGS hvað launaliðin varðar á hendur Samtökum atvinnulífsins er að lágmarkslaun verkafólks hækki úr 300.000 krónum í 425.000 krónur í þriggja ára samningi eða sem nemur 41.666 krónur að meðaltali á ári.  

SGS leggur gríðarlega áherslu á að samið verði um krónutölur ekki prósentur enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og eykur bara á ójöfnuð launa í íslensku samfélagi. SGS vill flata krónutöluhækkun á alla þá sem ekki taka laun eftir taxtakerfum. Það er alls ekki hugmynd SGS að krónutöluhækkun lágmarkslauna verði umreiknuð í prósentur og hátekjuhópar komi síðan og kefjist hækkun launa útfrá þeim sem numið gætu hundruðum þúsunda á mánuði. Nei - slíkt kemur ekki til greina. Allir sem ekki taka laun eftir lágmarkstöxtum skulu fá sömu krónutöluna óháð því hvort fólk er t.d. með 700.000 þúsund á mánuði eða 4,7 milljónir eins og t.d. meðallaun forstjóra í Kauphöllinni eru.

Það blasir við að það þarf þjóðarsátt um að lagfæra laun þeirra tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er alls ekki til að dreifa í dag. Það verður að lagfæra þessa launataxta umtalsvert þannig að verkafólk nái að eiga fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. Það er lýðheilsumál að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Til þess að það markmið náist gerir SGS kröfu um að lágmarkslaun verði skattlaus sem og að barna- og vaxtabætur hækki. Einnig vill SGS að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum um allt land enda hefur húsnæðismarkaðurinn verið eins og vígvöllur sem birtist m.a. í okurleigu og húsnæðisskorti.

Það gleður mig sem formann Verkalýðsfélags Akraness sérstaklega eins og áður sagði að í kröfugerð SGS eru róttækar kerfisbreytingar þegar kemur að okurvöxtum og verðtryggingu. SGS vill að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin og þak verði sett á húsnæðisvexti. Einnig vill SGS að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu en bæði þessi mál hafa verið lengi baráttumál Verkalýðsfélags Akraness.

 

Kröfugerð SGS gagnvart Samtökum atvinnulífsins, sjá hér : SGS - SA

Kröfugerð SGS gagnvart stjórnvöldum, sjá hér: SGS - stjórnvöld

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image