• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
05
Okt

Í gær var tekin skóflustunga að 33 nýjum leiguíbúðum fyrir tekjulágar fjölskyldur á Akranesi

Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að 33 nýjum leiguíbúðum á vegum íbúðafélagsins Bjargs fyrir tekjulágar fjölskyldur á Akranesi en þetta er verkefni sem verkalýðshreyfingin kom á laggirnar til að styðja við tekjulágar fjölskyldur eins og áður sagði.

Það er frábært að geta sagt frá því að fyrstu íbúðirnar verða afhentar um mitt sumar 2019. Akraneskaupstaður fær átta íbúðir til ráðstöfunar í íbúðarkjarnanum af þessum 33.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðirnar sem verða í Asparskógum verða því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn á Akranesi. Það er ljóst að eftirspurnin er meiri en framboðið á þessum íbúðum. Alls hafa 81 umsókn borist nú þegar um þessar 33 íbúðir sem eru í byggingu á Akranesi.

Það er rétt að geta þess að Modulus mun sjá um byggingu húsanna og arkitekt er Svava Björg Jónsdóttir en formaður félagsins fundaði með henni í gær þar sem farið var yfir verkefnið og er bygging á þessum íbúðum gríðarlega spennandi. En rétt er að geta þess að áætlað er að byggingartíminn verði afar stuttur en reiknað er með að byrjað verði að reisa þessar byggingar í mars og er áætlað að verklok verði 1. júní til 1. júlí 2019 eða sem nemur 4 til 5 mánuðum

Um er að ræða 40,4 fermetra stúdíóíbúðir, 52 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 77 fermetra þriggja herbergja íbúðir og 93 fermetra fjögurra herbergja íbúðir.

Rétt er að geta þess að opið er fyrir umsóknir og skráningu á biðlista hjá Bjargi á heimasíðu félagsins, www.bjargibudafelag.is.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image