• Sunnubraut 13, 300 Akranes
 • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
26
Sept

Róttækar kerfisbreytingar- verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar!

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður verða gríðarlega erfiðar og allt eins líklegt að það muni koma til harðra átaka á íslenskum vinnumarkaði. Enda blasir það við að margt íslenskt verkafólk býr við afar kröpp kjör enda launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði með þeim hætti að útilokað er fyrir þá sem eru á slíkum töxtum að þeir nái endum saman frá mánuði til mánaðar.

Það verður að vera forgangskrafa í komandi kjarasamningum að launatöflur verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lagfærðar umtalsvert. Rétt er að geta þess að lægsti launataxtinn er einungis 266.735 krónur fyrir fulla vinnu og hæsti gildandi launataxtinn rétt slefar í 300.000 krónur.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að bilið á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur unnið í til dæmis 15 ár hjá sama vinnuveitanda er einungis rétt rúm 2%. Einnig eru launabil á milli launaflokka einungis rúm 0,6%. Þetta er algjör skandall sem verður að leiðrétta umtalsvert í komandi kjarasamningum þannig að verkafólk fái starfsreynslu sína metna mun meira en nú er og einnig þarf að auka bilið á milli launaflokka.

En það er alls ekki það eina að lagfæra þurfi launatöflu verkafólks umtalsvert heldur verða stjórnvöld að létta verulega á skattbyrði lágtekjufólks t.d. með hækkun persónuafsláttar og einnig þarf að finna leið til að lágmarkslaun verði skattlaus.

Verkalýðsfélag Akraness vill að samið verði til þriggja ára og að allir sem taki ekki laun eftir launatöxtum fái sömu krónutöluna og ekki verði samið um prósentur á hinum almenna vinnumarkaði. Hví í ósköpunum eiga t.d. hátekjuhóparnir að þurfa að fá tugþúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda launahækkun umfram þá sem eru á lægri laununum? En slíkt gerist ætíð þegar samið er í prósentum og því verðum við að hætta því enda eru prósentu launahækkanir aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Róttækar kerfisbreytingar

Samhliða þessu þarf að knýja stjórnvöld til þess að koma á róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum sem lúta t.d. að því að hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. En eins og allir vita þurfa íslenskir neytendur að búa hér við okurvexti, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu. Íslensk heimili eru að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við heimili á Norðurlöndunum miðað við 25 milljóna húsnæðislán. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fjögurra manna fjölskylda er að greiða allt að 150 þúsundum meira í vexti og matarinnkaup í hverjum mánuði miðað við sambærilega fjölskyldu á Norðurlöndunum. Við verðum að ná niður kostnaði við að lifa hér á landi og það gerum við m.a. með því að endurskipuleggja fjármálakerfið þannig að ekki sé einvörðungu horft á fjármálalegan stöðugleika fjármálakerfisins og að fjármálalegur stöðugleiki alþýðunnar og heimilanna sé ekki látinn víkja fyrir stöðugleika fjármálakerfisins, eins og ætíð er gert!

Við þurfum líka að ráðast í þjóðarátak í húsnæðismálum og það getum við gert með því að taka 1% af samtryggingarhlutanum sem við greiðum í lífeyrissjóðina eins og hugmyndir VR ganga út á. En með þeirri hugmynd væri hægt að endurreisa verkamannabústaðakerfið á nokkrum árum.

Við verðum að fara í þessa vinnu enda er leigumarkaðurinn orðinn eins og vígvöllur þar sem græðgi og aftur græðgi ráða ríkjum með skelfilegum afleiðingum fyrir lágtekjufólk og allt ungt fólk.

Við þurfum líka að snúa við af þeirri braut er lýtur að svokallaðri tilgreindri séreign og breyta henni í frjálsa séreign. Enda óskiljanlegt að forysta ASÍ hafi stuðlað að því að koma þessari tilgreindu séreign á vegna þess að hún er háð mun strangari skilyrðum en frjáls séreign. T.d. má ekki byrja að leysa tilgreinda séreign út 60 ára eins og frjálsu séreignina heldur 65 ára, því til viðbótar má ekki nota tilgreindu séreignina til niðurgreiðslu á fasteignalánum eða til uppsöfnunar á útborgun í fyrstu húseign. Rétt er hins vegar að vekja sérstaka athygli á því að þessi tilgreinda séreign á að verða skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun og ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli voga sér að koma slíku á í ljósi þess að eitt af mikilvægustu atriðum lífeyriskerfisins er að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka á þær.

Verkalýðsfélag Akraness vill breyta þessari tilgreindu séreign í frjálsa séreign og gefa launafólki færi á að niðurgreiða húsnæðislán sín og safna fyrir útborgun á kaupum á fyrstu húseign.

Þetta eru nokkur atriði sem Verkalýðsfélag Akraness vill gera og nú er tækifæri til að knýja stjórnvöld til kerfisbreytinga þar sem hagsmunir alþýðunnar verði nú einu sinni hafðir að leiðarljósi. Við verðum að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með blandaðri leið launahækkana og kerfisbreytinga.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki tilbúið til að gefa neinn afslátt hvað það varðar og félagið trúir ekki öðru en að verkalýðshreyfingin í heild sinni standi saman í því að kalla eftir þessum róttæku kerfisbreytingum og það á vel við á 10 ára „afmæli“ hrunsins!

 

Hérna að neðan má sjá kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness á hendur stjórnvöldum:

 

Kröfugerð á stjórnvöld

 • Hækkun persónuafsláttar til handa þeim tekjulægstu
 • Lágmarkslaun verði skattlaus
 • Þjóðarátak í húsnæðismálum. (Verkamannabústaðakerfið verði endurreist, byggt á hugmyndum VR.)
 • Róttækar kerfisbreytingar verði gerðar á fjármálakerfinu þar sem hagsmunir almennings verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálakerfisins. Þessar kerfisbreytingar þurfa að leiða til mikillar lækkunar á kostnaði neytenda
 • Stjórnvöld komi á lægra vaxtastigi. (Raunvextir 3% hærri en í nágrannalöndunum)
 • Verðtrygging verði afnumin og þak sett á húsnæðisvexti. (Verðtrygging þekkist ekki í neinum löndum sem við viljum bera okkur saman við)
 • Húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. (Hefur hækkað um 118 milljarða frá 2013 til 2017)
 • Launafólk fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fasteignum.
 • Launafólk fái að ráðstafa 2,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða niðurgreiðslu fasteignalána.
 • Sjóðsfélagar geti valið sér lífeyrissjóð.
 • Félagsleg undirboð og gróf kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð og sektir verði lögfestar við slíkum brotum.
 • Skerðingarmörk barnabóta hækki í 350 þúsund.
 • Dregið verði stórlega úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu.
 • Stjórnvöld, sveitarfélög og verslunareigendur skuldbindi sig til að halda aftur af verðlagshækkunum.
 • Ójöfnunarstuðull/Öryggisventill á launahækkanir hálaunahópanna.
 • Afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image