• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
23
Ágúst

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins og að sjálfsögðu var formaðurinn við þeirri ósk.

Ástæða þess að stjórn lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins var eins og kom fram á fundinum í gær að hann hefur verið mjög gagnrýnin á lífeyriskerfið á opinberum vettvangi.

Formaðurinn fór yfir með stjórn Landssambands lífeyrissjóða hvað það er sem hann er óánægður með og var af nægu að taka hvað það varðar. Hann byrjaði á því að tala um tekjuskerðingar af hálfu Tryggingarstofnunar en það má segja að ábyrgð lífeyrissjóðanna hvað skerðingar varðar er ekki á þeirra ábyrgð heldur stjórnvalda.

En það er morgunljóst að þær tekjuskerðingar hafa að hluta til grafið undan trausti almennings á lífeyrissjóðskerfinu enda var hugsun sú þegar lífeyrissjóðirnir voru settir á 1969 að þeir ættu að vera viðbót við almannatryggingarkerfið. Formaður fór yfir það að mjög brýnt sé að verkalýðshreyfingin taki af krafti á þessum tekjuskerðingum og geri skýlausa kröfu á stjórnvöld að dregið verði verulega úr þeim eða jafnvel afnumdar með öllu.

Formaður fór einnig yfir að hann teldi það gjörsamlega glórulaust að sjóðirnir væru með 3100 af 4100 milljörðum í íslensku hagkerfi. Hann nefndi að það gengi ekki upp að það þyrfti á annað hundrað milljarða til að fóðra ávöxtun á innlendum eignum lífeyrissjóðanna enda væru það almenningur sem þurfti að sjá um að greiða fyrir þessa ávöxtun. Hann sagði jafnfram að það væri ekki í þágu neytenda að lífeyrissjóðirnir ættu orðið yfir 50% af skráðum eignum í Kauphöllinni og það væri ekki eðlilegt að sjóðirnir væru með ráðandi hluti í verslunarkeðjum, fjarskiptafyrirtækjum, flugfélögum, tryggingarfélögum, olíufélögum og svona mætti lengi telja. Formaður sagði að það væri morgunljóst að rík krafa er gerð á þessi fyrirtæki sem lífeyrissjóðirnir eiga að þau skili góðum arði til eigenda sinna. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að vöruverði er haldið uppi sem og kaupgjaldi og því bitnar þetta illilega á sjóðsfélögunum sjálfum. Formaður nefndi að það gæti vart verið tilviljun að norski olíusjóðurinn fjárfesti nánast eingöngu erlendis.

Formaður kom einnig inná það við stjórn landsambandsins að það væri nöturlegt að sjóðirnir væru að fjárfesta í leigufélögum eins og t.d. Almenna leigufélaginu sem og Heimavöllum enda lægi fyrir að verið er að níðast illilega á leigjendum þessi misserin og það liggur einnig fyrir að leiguverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Mörg dæmi eru um að verið sé að leigja tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði. Formaður fór sérstaklega yfir það að þarna væri verið að níðast á þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, þar er að segja tekjulágt fólk, öryrkjar og aldraðir og því væri það sorglegt að verið sé að nota fjármuni sjóðsfélaga í fjárfestingar í slíkum leigufélögum.

Formaður fór einnig fyrir svokallaða tilgreinda séreign sem væri með ólíkindum að hafi verið sett á laggirnar enda var ekkert samið um tilgreinda séreign í kjarasamningum. Þessu til viðbótar væri grátbroslegt að þeir sem kvarta yfir tekjuskerðingum vilja að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun. Formaður sagði að hann ætlaði að beita sér af alefli í komandi kjarasamningum að þessu yrði breytt þannig launafólk hafi val um að setja 3,5% aukaframlagið sem samið var um í frjálsséreign.

Formaður fór ítarlega yfir með stjórn landsambandsins að það væri ömurlegt að horfa upp á lífeyrissjóðina horfa aðgerðalausa á þegar fyrirtæki sem sjóðirnir eiga stóra hluti í, skammta forstjórum og lykilstjórnendum gríðarlegar kauphækkanir, bónusa og kaupréttasamninga. Þetta aðgerðaleysi lífeyrissjóðanna hefur m.a. garfið undan trausti til þeirra eins og kom t.d. í ljós þegar forstjóri N1 fékk launahækkun sem nam 1 milljón á mánuði en þarna sátu lífeyrissjóðirnir með hendur í skauti og aðhöfðust ekkert. Formaður sagði afar mikilvægt væri að sjóðirnir létu hérna vel í sér þegar svona sjálftaka af hálfu stjórnenda fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna væru framkvæmdar og ekki bara að láta í sér heyra heldur nota afl sitt til að stöðva svona sjálftöku enda misbýður þetta siðferðisvitunda almennings.

Formaður fór einnig yfir það gríðarlega óréttlæti sem látið er átölulaust er viðkemur fjölda öryrkja í verkamannasjóðunum en þar er örorkubyrðin miklu hærri en í öðrum sjóðum og sem dæmi þá eru um 20% af virkum sjóðsfélögum í Festu lífeyrissjóði öryrkjar og um 32% allra greiðslna úr sjóðnum á síðasta ári var vegna örorku og það sama er upp á teningum hjá Gildi lífeyrissjóði. Hvaða samtrygging er fólgin í því að skerða þurfi réttindi í verkamannasjóðnum m.a. vegna þess að þar er örorkubyrðin mun meiri en í öðrum sjóðum. Það verður að tryggja að stjórnvöld komi með greiðslu til verkamannasjóðanna sem dekkar þessa umfram örorkubyrði.

Þessi fundur var bara nokkuð góður enda fór formaður félagsins yfir mikið af þeim atriðum sem hann hefur gagnrýnt lífeyriskerfið um á liðnum árum og það merkilega í þessu öllu saman var að stjórn landssambands lífeyrisjóða sagði að þau væru nánast sammála formanni í öllum atriðum.

Nú er bara að vona að lífeyrissjóðirnir fari eftir þessum ábendingum formanns, þannig að tiltrú almennings á kerfinu aukist, enda veitir ekki af.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image