• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
04
Júlí

Formaður VLFA fundaði með félags- og jafnréttismálaráðherra í gær

Félags- og jafnréttismálaráðherra Ásmundur Einar Daðason óskaði eftir að funda með formanni félagsins og fór fundurinn fram í gær í Velferðarráðneytinu.

Þetta var ágætis fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum launafólks og heimilanna.

Að sjálfsögðu fór mikill tími í umræður um komandi kjarasamninga, þann gríðarlega húsnæðisvanda sem nú ríkir í íslensku samfélagi og það neyðarástand sem er á leigumarkaðnum. En eins og allir vita þá hefur húsaleiga hækkað gríðarlega á undanförnum árum og frá 2011 nemur þessi hækkun um 84%.

Formaður var ekkert að skafa af því að líkurnar á mjög alvarlegum átökum á íslenskum vinnumarkaði eru umtalsverðar þegar kjarasamningar renna út um næstu áramót. Við erum með lágmarkslaun og taxta verkafólks sem duga engan veginn fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og því ljóst að lagfæra verður ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert í komandi kjarasamningum.

Það liggur algerlega fyrir að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum þarf að vera mikil ef hægt á að vera komast hjá verkfallsátökum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður fór yfir með ráðherranum að VR, Efling, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness kalla eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem tekið verði á okurvöxtum, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Það liggur líka fyrir að þessi félög kalla eftir lagasetningu á húsaleigulögum þar sem neytendavernd leigjenda verði tryggð mun betur en nú er gert enda með öllu ólíðandi að um eða yfir 50% launa fari í greiðslu á húsaleigu.

Þessi stéttarfélög vilja endurreisa verkamannabústaðakerfið enda ljóst að það verður að taka á þessu neyðarástandi sem ríkir á íslenskum húsnæðismarkaði.

Einnig fór formaður yfir að létta þurfi skattbyrði á launafólki sem er á tekjubilinu 300 til 600 þúsund og hækka þurfi skerðingarmörk barnabóta umtalsvert enda ótrúlegt að barnabætur skuli byrja að skerðast við einungis 241 þúsund króna tekjur.

Það er ljóst að ef atvinnurekendur vilja lagfæra laun tekjulægstu hópanna umtalsvert og ríkisstjórn verði tilbúin að fara í umtalsverðar kerfisbreytingar sem lúta að þessum atriðum sem nefnd hafa verið hér þá verða allavega þessi stéttarfélög tilbúin að gera kjarasamning sem gæti gilt í allt að fjögur ár.

Enda liggur fyrir að þegar stór hluti ráðstöfunartekna launafólks fer í húsaleigu og vaxtakostnað þá er til mikils að vinna við að koma böndum á leigumarkaðinn og lækka vaxtakostnað, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Formaður fór yfir með ráðherranum að ef atvinnurekendur og stjórnvöld verða ekki tilbúin að stíga þessi skerf með verkalýðshreyfingunni þá sé morgunljóst að við munum sjá verkfallsátök á íslenskum vinnumarkaði sem ekki hafa sést í áratugi og kom fram hjá formanni að þetta væri ekki hótun heldur staðreynd.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image