• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jun

Kristjáni Loftssyni forstjóra fyrir hönd Hvals hf. stefnt fyrir félagsdóm!

Þessa stundina er lögmaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja lokahönd á stefnu á Kristján Loftsson forstjóra Hvals hf. fyrir að meina öllum starfsmönnum að vera í Verkalýðsfélags Akraness á þeirri vertíð sem nú er nýhafin. Málinu verður stefnt fyrir félagsdóm og mun það gerast annað hvort í dag eða strax eftir helgi.

Eins og fram hefur komið í nánast öllum fjölmiðlum landsins þá hefur Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. meinað starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness og segist muni greiða öll iðgjöld til Stéttarfélags Vesturlands.

Eins og einnig hefur komið fram þá er þessi aðgerð forstjórans gróf hefndaraðgerð vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness stefndi Hval hf. árið 2016 fyrir dómstóla vegna brota á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Bæði Héraðsdómur Vesturlands og Hæstiréttur tóku undir kröfur Verkalýðsfélags Akraness og var Hvalur hf. dæmdur til að greiða starfsmanni 700 þúsund kr. með dráttarvöxtum en dómur Hæstaréttar mun klárlega hafa gríðarlegt fordæmisgildi og getur náð til á annað hundrað starfsmanna sem störfuðu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015. En á þessum vertíðum voru rétt tæpir hundrað félagsmenn VLFA sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Rétt er að geta þess sérstaklega að aldrei var neitt vandamál fyrir starfsmenn fyrirtækisins á þessum vertíðum að fá að greiða iðgjöld til VLFA og vera þannig félagsmenn VLFA.

Nú við upphaf hvalvertíðar 2018 var hins vegar öllum starfsmönnum Hvals hf. tilkynnt að fyrirtækið krefjist þess af starfsmönnum sínum að þeir eigi ekki aðild að Verkalýðsfélagi Akraness vegna starfa sinna hjá fyrirtækinu á yfirstandandi vertíð og öllum iðgjöldum verði skilað til Stéttarfélags Vesturlands.

Það er morgunljóst að þetta er ekki bara gróf hefndaraðgerð af hálfu forstjóra Hvals hf. heldur er þessi krafa Kristjáns Loftssonar kolólögleg. Nægir að nefna í því samhengi að Verkalýðsfélag Akraness ásamt Stéttarfélagi Vesturlands eru með kjarasamning um þau störf sem gilda við vinnslu á Hvalaafurðum í Hvalfirði, einnig er rétt að geta þess að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Það liggur fyrir að þessi krafa Hvals hf. er skýrt brot á 4.gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Rétt er að ítreka enn og aftur að Hvalur hf. tapaði nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti sem Verkalýðsfélag Akraness rak fyrir félagsmann sinn, blasir því við að um grófa og alvarlega hefndarráðstöfun atvinnurekanda er að ræða gagnvart Verkalýðsfélagi Akraness og félagsmönnum þess eins og ASÍ hefur m.a. bent á.

Starfsgreinasamband Íslands hefur einnig bent á að Verkalýðsfélag Akraness og Stéttarfélag Vesturlands hafa í gildi kjarasamning um störf starfsmanna Hvals hf. sem gerður var sameiginlega undir merkjum Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins og sem Hvalur hf. er bundinn af.

Það er því hvellskýrt að starfsmenn hafa fullt frelsi til að velja hvoru félaginu þeir kjósa að eiga aðild að.

Atvinnurekendur hafa ekki heimild til þess að ákveða stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna eða hvert iðgjöldum skv. kjarasamningum og lögum er skilað. Þegar tvö félög eða fleiri eru með kjarasamning um sömu störf á sama svæði er það alveg ljóst að starfsfólkið sjálft getur valið til hvaða félags iðgjöldum skal skilað og þar með hvaða félag ver hagsmuni þess.

Ef atvinnurekendur ætla sér að hlutast til um það og beina starfsfólki í eitt félag frekar en annað er verið að vega að réttindum launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar með ósvífnum hætti. Rétt er að geta þess að Alþýðusamband Íslands hefur í yfirlýsingu fordæmt afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki vaða yfir sína félagsmenn á skítugum skónum og verður öllum slíkum aðgerðum mætt af fullri hörku!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image