• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
21
Júní

Hvalur hf. reynir að refsa VLFA fyrir að hafa unnið mál gegn fyrirtækinu í Hæstarétti

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness dómsmál fyrir Hæstarétti gegn Hvali hf. þar sem starfsmanni sem starfaði á hvalvertíðinni 2015 voru dæmdar tæpar 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum.  En málið laut að því að Verkalýðsfélag Akraness taldi að Hvalur væri ekki að greiða samkvæmt fyrirliggjandi ráðningasamningi og svokallaðan vikulegan frídag vantaði þegar starfsmenn ynnu meira en samfellt í sjö daga. Þessa kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness staðfesti síðan Hæstiréttur í dómi sem féll 14. Júní síðastliðinn.

Í ljósi þess að ráðningarsamningar allra starfsmanna voru nákvæmlega eins þá liggur fyrir að fordæmisgildi dóms Hæstaréttar getur klárlega verðið umtalsverður og skilað öllum starfsmönnum umtalverði leiðréttingu vegna vertíða sem voru 2013, 2014 og 2015. Hæglega getur þessi leiðrétting numið allt að 300 milljónum ef fordæmisgildið nær til allra starfsmanna.

Eins og hefur komið fram í fréttum er þessa daganna að hefjast hvalvertíð eftir 2 ára hlé og núna virðist fyrirtækið ætla að grípa til hefndaraðgerða vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness vogaði sér að standa þétt með sínum félagsmönnum við að leita réttar síns fyrir dómstólum og uppfylla þannig lögbundnar skyldur sínar sem eru m.a. að tryggja að atvinnurekendur fari eftir gildandi ráðningar- og kjarasamningum.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því að með dómi Hæstaréttar hefur Verkalýðsfélag Akraness tryggt að laun starfsmanna á komandi hvalvertíð hækkar um allt að 250 þúsund á mánuði eða sem nemur 750 þúsundum yfir alla vertíðina sem stendur yfirleitt í 3 mánuði. Já dómurinn tryggði starfsmönnum á vertíðinni sem nú er að hefjast launahækkun sem nemur allt 750 þúsundum. En starfsmaður á 5 ára launataxta mun hafa allt að 1,3 milljón á mánuði. Vissulega er umtalsvert vinnuframlag að baki slíkum launum.

Eins eins og áður sagði að þegar starfsmenn komu til fundar með forsvarsmönnum Hvals í gær, var þeim tilkynnt að enginn mætti vera í Verkalýðsfélagi Akraness heldur yrðu allir að vera í Stéttarfélagi Vesturlands þrátt fyrir að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé einnig á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness,

Forsvarsmenn Hvals héldu þeirri rakalausu þvælu fram við starfsmenn sína að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit heyrði ekki undir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness en orðrétt segir í 1. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness:   „Félagið heitir Verkalýðsfélag Akraness. Félagssvæði þess er Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit. Félagið og deildir þess eru aðilar að viðkomandi sérsamböndum, sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands".  Enda óumdeilt að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Í ljósi þess að forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að blekkja starfsmenn sína með þessum ósannindum í gær til að koma höggi á Verkalýðsfélag Akraness, óskaði VLFA eftir staðfestingu frá yfirlögfræðingi ASÍ um að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit væri á félagssvæði VLFA til að hrekja þessa rakalausu þvælu frá forsvarsmönnum Hvals hf.. Enda stenst þetta ekki nokkra skoðun, því starfsmenn Hvals hf. hafa allt frá því að vertíð hófst árið 2009 verið að stórum hluta félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en núna eftir að félagið fór í mál gegn Hvali fyrir hönd síns félagsmanns á að meina öllum starfsmönnum aðild að félaginu.

Það er morgunljóst að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. ætlar að reyna að refsa Verkalýðsfélagi Akraness með því að meina starfsmönnum að vera í VLFA vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna gagnvart fyrirtækinu.

Formaður er afar stoltur af tugum félagsmanna sem eru nú að hefja störf hjá Hval hf. sem neituðu að skrifa undir ráðningarsamning í gær með þessum ólöglegu þvingunaraðgerðum sem forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að knýja í gegn á fundinum í gær.

Það er rétt að geta þess að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sent forsvarsmönnum Hvals hf. bréf þar sem þessum kolólöglegum aðgerðum er harðlega mótmælt. „Þetta ofbeldi Kristjáns Loftssonar er gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og andstætt öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði og svona gera atvinnurekendur ekki sem vilja láta taka sig alvarlega á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því aðgerðin er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti þessum hætti og refsa stéttarfélaginu fyrir að uppfylla sínar lagalegu skyldur sem hvíla á öllum stéttarfélögum um að verja réttindi sinna félagsmanna gegn kjarasamningsbrotum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image