• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jun

Hæstaréttadómurinn frá því í gær hefur mikið fordæmisgildi fyrir allan vinnumarkaðinn!

Það er óhætt að segja að hæstaréttardómurinn sem féll í gær í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. hafi skýrt réttaróvissu launafólks á hinum almenna vinnumarkaði er lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi.

Ein af kröfum félagsins var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti dagvinnu aukalega fyrir þó vikulegur frídagur væri ekki tekin. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umdræddir frídagar séu launaðair er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta er tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa átt þátt í því að eyða þessari réttaróvissu sem hefur verið vegna þessa vikulega frídags sem getið er um í nánast öllum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image