• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
06
Júní

Mál gegn Hval hf. flutt fyrir Hæstarétti í morgun

Í morgun var flutt mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Hval hf. fyrir Héraðsdóm Vesturlands árið 2016 en dómur féll í Héraðsdómi 28. Júní 2017.

Verkalýðsfélag Akraness vann aðalkröfuna en krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins og dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Þessum dómi Héraðsdóms Vesturlands ákváðu forsvarsmenn Hvals að áfrýja til Hæstaréttar og eins og áður sagði var málið flutt í Hæstarétti í morgun.

Krafan fyrir hönd félagsmannsins hljóðaði í heildina uppá rétt rúma eina milljón og byggðist uppá vertíðinni 2015 en hún byggðist á fjórum þáttum sem eru eftirfarandi:

  • Sérstök greiðsla að upphæð 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt sem getið var um í ráðningarsamningi vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.
  • Vangreiðsla vegna lágmarkshvíldar
  • Vangreiðsla vegna bónus sem samið var um fyrir fiskvinnslufólk árið 2015
  • Vangreiðsla vegna svokallaðs vikulegs frídags.

Eins og áður sagði þá hljóðaði heildarkrafa Verkalýðsfélags Akraness uppá rétt rúma eina milljón króna en dómur Héraðsdóms féllst á kröfuna um sérstöku greiðsluna sem var uppundir 50% af heildarkröfunni og var félagsmanninum dæmdar 455.056 kr. Enda komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að skilja ráðningarsamninga starfsmannsins öðruvísi en svo að þessi sérstaka greiðsla væri til viðbótar vaktakaupinu sem getið var um í ráðningarsamningum.

Félagið áfrýjaði hinum þremur atriðunum sem ekki náðust í gegn fyrir Héraðsdómi og verður afar fróðlegt að sjá hvernig Hæstiréttur dæmir í bónusgreiðslunni sem samið var um í kjarasamningunum 2015 fyrir fiskvinnslufólk en þá var samið um að allir sem væri að starfa við fiskvinnslu ættu rétt á 220 kr. lágmarksbónus fyrir hverja unna klukkustund. Hvalur vildi meina það að starfsmenn Hvals væru ekki fiskvinnslumenn og ynnu ekki eftir fiskvinnslukaflanum þar sem lágmarksbónusgreiðslan er getið.

Þeir vilja meina að starfsmenn heyri undir iðnverkakafla kjarasamningsins þrátt fyrir að á öllum launaseðlum starfsmanna sé getið um að þér séu annað hvort ósérhæfðir eða sérhæfðir fiskvinnslumenn. Hvalur heldur því fram að þessi starfsheiti hafi birst vegna tölvuvandamála en lögmaður VLFA sýndi fram á að þau rök stóðust ekki að mati formanns.

Það er óhætt að segja að það verður gríðarlega spennandi að sjá hvort Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands enda miklir hagsmunir í húfi fyrir alla þá fjölmörgu starfsmenn sem hafa starfað á hvalvertíðum frá árinu 2009. Því það má klárlega leiða að líkum að því að dómur Hæstaréttar muni hafa fordæmisgildi gagnvart öllum starfsmönnum sem hafa starfað á vertíðunum frá 2009 til 2015.

Það liggur ekki fyrir hvenær dómur fellur í Hæstarétti en það má jafnvel búast við að dómur falli eftir viku eða hálfan mánuð.

Formanni fannst málflutningur okkar fyrir Hæstarétti í þessu máli ganga bara nokkuð vel og lögmaður okkar hafi reynt að koma öllum þeim atriðum sem skipta máli vel á framfæri við Hæstarétti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image