• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Meira af tillögum um skattalækkanir Samanburður á tillögum VLFA, ríkissjórnarinnar og ASÍ. Smellið á mynd til að stækka.
21
Nov

Meira af tillögum um skattalækkanir

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness lagst gegn því hvernig fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu eru útfærðar, en ríkisstjórnin áætlar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að lækka miðþrepið úr 25,8% í 25%. Fram hefur komið að áætlaður kostnaður vegna þessa er 5 milljarðar króna.


Ekki leggst VLFA gegn því að ráðstafa eigi 5 milljörðum til skattalækkunar, síður en svo. Það sem félagið hefur gagnrýnt er útfærslan sjálf, en með þessari aðferð fá þeir sem eru tekjulágir sáralítið sem ekki neitt í sinn hlut. Reyndar fá þeir sem eru með undir 250.000 krónum í mánaðarlaun enga skattalækkun, og þeir sem eru með 500.000 krónur fá tæplega 2.000 kr.

ASÍ hefur einnig lagst gegn þessum breytingum og hefur lagt fram eigin tillögur, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést að þeir sem eru með undir 250.000 kr. á mánuði fengju ennþá ekki krónu í skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness leggur til að í stað þess að lækka skattprósentu verði persónuafsláttur hækkaður, en slík aðgerð myndi koma öllum vel óháð tekjum. Það eru greinilega til 5 milljarðar í ríkiskassanum sem á að ráðstafa í þennan málaflokk og þeir fjármunir duga til að hækka persónuafslátt sem nemur 2.000 krónum. Auðvitað mætti þessi upphæð vera mun hærri, en þetta eru þó 24.000 krónur á ári og lágtekjufólk munar um minna. Það sem VLFA vill benda á er að aðgerð sem þessi gagnast betur öllum þeim sem eru með undir 500.000 kr. á mánuði, aðgerðirnar sem ríkisstjórnin og ASÍ hafa lagt til gagnast betur þeim sem eru með yfir 500.000 í mánaðarlaun. Það er kjarni málsins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur nú þegar fundað með ráðamönnum um þessi mál og standa vonir til að náist að koma þessum málum í betri horf áður en fjárlög verða afgreidd á Alþingi. Það er ekki hægt að misbjóða íslensku verkafólki með tillögum sem ganga út að þær skattalækkanir sem þó verði ákveðið að fara í renni í vasa þeirra sem hæstu hafa launin, en þeir sem lægst hafa launin verði skildir eftir. Við það verður ekki unað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image