• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær Frá aðalfundinum í gær
26
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness og fór hann fram með hefðbundnu sniði samkvæmt auglýstri dagskrá. Fundarstjóri var Bjarni Ólafsson og ritari fundarins var Björg Bjarnadóttir.

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, kynnti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og helstu mál sem komið hafa á borð félagsins síðasta árið. Einnig fór Vilhjálmur yfir þau verkefni sem eru framundan og var þar af nógu að taka. Um næstu áramót losna til að mynda allir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði og nauðsynlegt að undirbúa þá baráttu vel og tímanlega. Þessi undirbúningur er þegar hafinn enda hafa nú orðið ákveðin straumhvörf í íslenskri verkalýðsbaráttu þar sem nýr meirihluti hefur náðst innan ASÍ. Þessi meirihluti hefur í hyggju að mynda bandalag í komandi kjarasamningum og fór Vilhjálmur yfir helstu áherslumál bandalagsins.

Félagsmenn VLFA eru duglegir að nýta sér þjónustu og styrki félagsins, en í máli Vilhjálms kom fram að á síðasta ári fengu 1245 manns greiðslu úr sjúkrasjóði, 243 fengu einstaklingsstyrki greidda úr menntasjóðum, tæplega 300 manns keyptu sér Veiðikort, Útilegukort, gistimiða og slíkt, yfir 100 manns nýttu sér framtalsaðstoð félagsins og um 100 manns fóru í dagsferð eldri borgara í boði félagsins.

Ársreikningar félagsins voru lagðir fyrir aðalfundinn en afkoma félagsins á síðasta ári var afar góð eða tæpar 92 milljónir, þrátt fyrir að félagið hafi greitt um 22 milljónir út úr verkfallssjóði í verkfalli sjómanna. Eignir félagsins eru 1.355 milljónir og þar af handbært fé um 1.165 milljónir. Verkfallssjóður er rekinn með tapi í ár vegna verkfallsins, en aðrir sjóðir félagsins skiluðu góðum hagnaði og rekstur félagsins er almennt góður.

Fyrir fundinn var lögð tillaga stjórnar að breytingum á 5., 14 og 29. grein laga félagsins. Vilhjálmur fór yfir breytingartillöguna og útskýrði tilgang hennar. Samkvæmt breytingartillögu vegna 5. greinar fá aukafélagar atkvæðisrétt, en munu sem áður ekki hafa kjörgengi. Breytingartillagan vegna 14. greinar snerist um að uppfæra fjölda formanna og varaformanna deildar, en á því var þörf vegna tilkomu nýstofnaðrar verslunarmannadeildar félagsins. Samkvæmt breytingartillögu vegna 29. greinar var formanni og varaformanni nýstofnaðrar verslunarmannadeildar bætt inn. Einnig er breyting á fresti til að skila inn framboðslistum til stjórnar. Eftir umræður var tillagan borin undir fundinn og samþykkt samhljóða.

Í fundarlok þakkaði Vilhjálmur stjórn félagsins og starfsmönnum kærlega fyrir gott samstarf á síðasta ári.

Eftir fundinn bauð félagið fundargestum upp á kvöldverð.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image