• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Sep

Spurning hvort miðstjórn ASÍ biðji Ragnar Þór Ingólfsson ekki afsökunar?

Miðstjórn ASÍ sá sig knúna í gær til að senda yfirlýsingu þar sem ummæli formanns VR á Facebook voru harðlega gagnrýnd. En yfirlýsingin gekk út að um órökrétt viðbrögð hans hafi verið að ræða um skýrslu ASÍ um skattamál. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp frétt á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness frá 2013 sem fjallar um tillögur ASÍ um skattamál samhliða kjarasamningsgerð.  En þau voru eilítið grátbrosleg viðbrögð miðstjórnar Alþýðusambands Íslands við þessari stöðuuppfærslu

En í þessari stöðuuppfærslu sagði formaður VR að forysta ASÍ hefði m.a. alið á uppgjöf og aumingjaskap í sinni hagsmunagæslu fyrir launafólk og bað líka forystu ASÍ að hætta þessum blekkingarleik hvað varðar kaupmáttaraukningu.

Undir þessi gagnrýnisatriði frá formanni VR get ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness svo sannarlega tekið undir enda eru þetta allt atriði sem ég hef margoft fjallað um á þingum ASÍ og gagnrýnt forystuna harðlega fyrir.

En eins og áður sagði þá sendi öll miðstjórn ASÍ frá sér tilkynningu þar sem Ragnar Þór var harðlega gagnrýndur fyrir skrif sín en í þessari yfirlýsingu frá miðstjórninni segir m.a. að um sé að ræða órökrétt viðbrögð formanns VR við skýrslu ASÍ um skattamál.

Í yfirlýsingunni segir líka að Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafi háð langa og erfiða baráttu við stjórnvöld um þróun skattkerfisins, með skýrum kröfum um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Það er dálítið undarlegt að forysta ASÍ skuli ýja að því í þessari yfirlýsingu að forystan hafi ætíð lagt fram skýrar kröfur um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Er miðstjórn ASÍ virkilega búin að gleyma fyrstu tillögum sínum til skattabreytinga sem hún lagði fram til ríkisstjórnar í nóvember 2013 samhliða kjarasamningsgerðinni og án þess að leita samþykkis hjá mörgum aðildarfélaga sinna? Rifjum þetta aðeins upp! Í fjárlagagerðinni sem lögð var fram 2013 voru lagðar fram skattabreytingar sem miðuðu að því að lækka miðþrepið í skattkerfinu úr 25,8% í 25% og var áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara tillaga sé um 5 milljarðar króna. Þessum hugmyndum mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega og taldi í raun og veru þessar tillögur algjörlega galnar.

Þessi tillaga ríkisstjórnarinnar var algjörlega galin og miðast fyrst og fremst að því að hygla þeim tekjuhæstu í íslensku samfélagi. Verkalýðsfélag Akraness sagðist árið 2013 aldrei geta tekið þátt í að styðja þessa skattabreytingar enda gengu þær út á að einstaklingar með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengju ekki neina skattalækkun. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness árið 2013 var hvellskýr og félagið mótmælti þessum fyrirhuguðu skattabreytingum harðlega.

Verkalýðsfélag Akraness lagði til að það 5 milljarða svigrúm sem væri til skattalækkana yrði notað til hækkunar á persónuafslætti, en skv. útreikningum fjármálaráðuneytisins árið 2013 þá lá fyrir að persónuafslátturinn gæti hækkað um 2.000 kr. á mánuði sem myndi gilda fyrir alla launþega óháð tekjum. Ef leið VLFA hefði verið farin þá hefði hún skilað öllu launafólki kr. 24.000 í auknar ráðstöfunartekjur á ári, en að sjálfsögðu kemur hækkun persónuafsláttar sér hlutfallslega best fyrir lágtekjufólkið.

En hvaða skattatillögur lagði forysta ASÍ í fyrstu fram til ríkisstjórnarinnar árið 2013? Var það að hækka persónuafsláttinn um 2.000 krónur á mánuði eins og VLFA hafði lagt til og hefði gilt fyrir alla, líka þá sem voru með tekjur undir 250 þúsund á mánuði? Nei, forysta ASÍ lagði til nýja leið sem þeir kölluðu „Betri leið til að lækka tekjuskatt á þorra launafólks“

en í þessum tillögum var áfram gert ráð fyrir að fólk með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengi ekki krónu í skattalækkun af þessu 5 milljarða svigrúmi. En tillögur forystu ASÍ gengu út á að hækka mörkin milli lægsta þrepsins og milliþrepsins úr ríflega 240 þúsund kr. í 350 þúsund kr. En eins og áður sagði þá voru þessar tillögur ASÍ þannig úr garði gerðar að áfram var gert ráð fyrir að þeir sem höllustum fæti stóðu í íslensku samfélagi áttu ekki að fá krónu af þessari 5 milljarða skattalækkun!

Þessari skattatillögu ASÍ mótmælti Verkalýðsfélag Akraness og nokkur önnur félög innan Starfsgreinasambands Íslands harðlega sem klárlega varð til þess að forysta ASÍ lagði fram aðra skattatillögu til ríkisstjórnarinnar á lokametrum í kjarasamningsgerðinni 2013 sem laut að því að færa mörkin í 295 þús.kr. og hækka persónuafsláttinn um kr. 1.000.

Mitt mat er að skattatillaga frá forystu ASÍ kom alltof seint og því miður held ég að hugur hafi ekki fylgt máli hjá forystu ASÍ um að hækka persónuafsláttinn, en ríkisstjórnin hafnaði að hækka persónuafsláttinn um þennan skitna 1000 kall sem ASÍ lagði til en samþykkti að færa mörkin í 295 þúsund.

Hvað þýddi þetta? Jú, lágtekjufólk, öryrkjar og atvinnulausir sem voru  með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengu ekki krónu af þessum 5 milljörðum í skattaafslátt en á sama tíma fékk launafólk sem var með yfir 800 þúsund í tekjur 42 þúsund í lækkun á sínum sköttum á ári!

Þessa tillögu samþykkti forysta ASÍ en rétt er að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness ásamt fjórum öðrum stéttarfélögum innan SGS neituðu að skrifa undir þessa kjarasamninga meðal annars vegna þess að skilja átti tekjulægsta fólkið eftir þegar kom að skattabreytingum.

Það er rétt að rifja upp að Verkalýðsfélag Akraness hvatti alla launamenn til að fella þennan kjarasamning og það var gert í fjölmörgum félögum en það skilaði síðan því að ríkissáttasemjari lagði fram sáttatillögu sem skilaði launafólki m.a. hækkun á orlofs-og desemberuppbótum.

Ég vildi bara rifja þessa sögu upp í ljósi þess að miðstjórn ASÍ sá sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem Ragnar Þór var harðlega gagnrýndur og sagt að ummæli hans hafi verið órökrétt og forysta ASÍ hafi ætíð lagt fram „skýrar“ kröfur um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Semsagt það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til ársins 2013 þar sem fyrstu tillögur ASÍ til breytinga á skattatillögum gengu út á að skilja tekjulægsta fólkið eftir sem leiddi til þess að það fékk ekki eina krónu í skattalækkun!

Spurning hvort miðstjórn ASÍ biðji Ragnar Þór Ingólfsson ekki afsökunar á þessari yfirlýsingu því sagan sýnir að hann hefur töluvert til síns máls

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image