• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
15
Nóv

FME tekur forystu ASÍ og Samtök atvinnulífsins á lærið og rassskellir þá enn og aftur

Formaður félagsins skrifaði ítarlega frétt hér á heimasíðuna 25 júlí um það hvernig Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað reynt að fá lífeyrissjóðina til að þverbrjóta lög nr 129/1997 um lífeyrismál en sem betur fer hefur Fjármálaeftirlitið staðið vaktina vel og bent lífeyrissjóðunum á að það sem ASÍ og SA vilja láta þá framkvæma standist ekki lög.

Málið lýtur að því að ASÍ og SA vilja þvinga launafólk til að greiða allt mótframlagið inn til lífeyrissjóðanna en þetta auka framlag mun nema þegar það verður komið að fullu til framkvæmda 3.5%. FME hefur ítrekað bent á að launafólk hefur val um að greiða svokallaða tilgreinda séreign til hvaða vörsluaðila sem það kýs að velja en þessu hafa ASÍ og SA ekki viljað una þrátt fyrir að FME hafi ítrekað bent á að þvingun þeirra stangist á við lög. Sjá hér og hér

Þrátt fyrir þessar alvarlegu ábendingar Fjármálaeftirlitsins þá hefur forysta ASÍ reynt ítrekað að koma í veg fyrir að launafólk geti valið sér vörsluaðila til að ávaxta þessa svokölluðu séreign. En ASÍ og SA hafa verið að reyna að fá stjórnvöld til að breyta lögum þannig að allt launafólk verði þvingað með lögum til að leggja allt framlagið inn til lífeyrissjóðanna og ekki bara það heldur leggja ASÍ og SA til að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarsofnun sem er með öllu óskiljanlegt.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur FME ítrekað bent á að þetta stangist á við lög um lífeyrismál en þrátt fyrir það hætta ASÍ og SA ekki við að reyna að koma í veg fyrir það að launafólk hafi þetta val og þeir reyna að beita öllum brögðum í bókinni til þess og núna samþykkti miðstjórn ASÍ að óskað yrði eftir því við lífeyrissjóðina að launafólk hefði ekki val um að leggja aukið framlag upp á allt að 3,5% í svokallaða tilgreinda séreign heldur vildi miðstjórn ASÍ að allt framlagið myndi renna í samtrygginguna þvert gegn því sem samþykkt var í kjarasamningum frá 2016. Formaður VLFA efaðist strax um að miðstjórn ASÍ hefði lagalega heimild til að svíkja launafólk með þessum hætti og ákvað því að senda erindi á Fjármálaeftirlitið og spurði hvort hægt væri fyrir lífeyrissjóðina að banna launafólki að leggja auka framlagið í tilgreinda séreign en þvinga það þess í stað til að setja það allt í samtrygginguna þvert gegn samþykktum sjóðanna og kjarasamningsbundnum rétti launafólks.

Svar Fjármálaeftirlitsins til Verkalýðsfélags Akraness var skýrt, en við fyrstu skoðun segir FME að það stangist á við lög og samþykktir lífeyrissjóðanna og bendir á að breyta þurfi samþykktum lífeyrissjóðanna ef þetta eigi að vera hægt!!!!

Semsagt enn og aftur reynir forysta ASÍ og SA að brjóta lög nr. 129/1997 um lífeyrismál og núna vildu þau að kjarasamningsbundinn réttur launafólks sem samið var um 2016 yrði að engu hafður þannig að launafólk hefði ekki lengur val um að leggja hluta að þessu  mótframlagi í séreign eins og samið hafði verið um og líka í ljósi þess að búið var að breyta samþykktum lífeyrissjóða til að gera þetta framkvæmanlegt.

Formaður VLFA verður að hrósa Fjármálaeftirlitinu, en þetta er í þriðja sinn sem FME tekur forystu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins á lærið og rassskellir þá vegna tilgreindu séreignarinnar og segir svona gerið þið ekki því þið eruð að brjóta lög!

Það er með svo miklum ólíkindum hvernig forysta ASÍ fótum treður réttindi sinna félagsmanna og leggur til ítrekað að lög og samþykktir lífeyrissjóðanna séu brotnar.Svo ekki sé talað um kjarasamningsbundin réttindi félagsmanna sinna.

En hvað vakir fyrir forystu ASÍ? Formaður skal fúslega viðurkenna að hann áttar sig alls ekki á því annað en það að þeir vilja að allt þetta aukaframlag upp á 3,5% renni allt til lífeyrissjóðanna og launafólk hafi alls ekki val um að velja sér aðila annan en lífeyrissjóðina til að ávaxta þessa tilgreindu séreign. Þeir vilja að lög verði sett sem skyldi allt launafólk til að leggja allt framlagið til lífeyrissjóðanna og launafólk hafi ekkert annað val. Þeir vilja líka að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun sem er með öllu óskiljanlegt.

Það er mér allavega hulin ráðgáta hví forystan vinnur svona gegn sínum eigin félagsmönnum og þeir virðast vera til í að fórna hagsmunum þeirra til að verja hagsmuni lífeyriskerfisins.

En allavega hefur Fjármálaeftirlitið enn og aftur slegið illilega á puttana á forystu ASÍ og sagt svona gera menn ekki! Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki að láta forystu Alþýðusambandsins komast upp með þessi vinnubrögð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image