• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Dec

Annað málið gegn Skaganum 3x tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur

Rétt í þessu lauk aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli erlends starfsmanns gegn Skaganum 3x.

En málið laut að því að honum var sagt upp störfum og í þeirri uppsögn var hann einnig sviptur kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti sem hann hafði áunnið sér.

Málavextir voru þeir að hann var tekinn fyrir vörslu og meðferð fíkniefna á heimili sínu en gert var upptækt rétt rúmt eitt gramm af marijúana. Rétt er að geta þess að umræddur starfsmaður leigði herbergi hjá vinnuveitandanum og þegar honum var sagt upp þá var honum einnig sagt að yfirgefa herbergið sem hann hafði á leigu og stóð hann því bæði uppi húsnæðislaus sem og atvinnu- og tekjulaus vegna þess að vinnuveitandinn ætlaði að svipta hann rétti til launa í uppsagnarfresti.

Umræddur starfsmaður leitaði til Verkalýðsfélags Akraness og eftir að félagið hafði skoðað málið þá var ljóst að félagið taldi að starfsmaðurinn ætti rétt á launum í sínum uppsagnarfresti enda brot hans alls ekki af þeirri stærðargráðu að það heimilaði sviptingar á launum í uppsagnarfresti.

Íslenskur vinnumarkaður er mjög sveigjanlegur þegar kemur að því að segja upp starfsfólki og á þeirri forsendu einni saman er gríðarlega mikilvægt að launafólk haldi rétti sínum til launa í uppsagnarfresti nema brotið sé því alvarlegra. Í þessu máli er ekki slíku til að dreifa enda liggur ekki nokkur sönnun fyrir því að umræddur starfsmaður hafi nokkurn tímann verið undir áhrifum fíkniefna né annarra vímugjafa við vinnu sína. Engar þvag- eða blóðprufur voru framkvæmdar til að sanna að hann hafi verið undir áhrifum við vinnu sína og því er glórulaust að mati félagsins að svipta hann umræddum uppsagnarfresti

Þegar starfsmanninum var sagt upp var honum ekki boðið að fá trúnaðarmann né fulltrúa frá stéttarfélaginu til að vera sér innan handar við að verja sín réttindi. Uppsagnarbréfið var ekki á hans tungumáli og honum ekki boðið að hafa túlk hjá sér.  Með öðrum orðum hann vissi alls ekki hver hans réttur var og því leitaði hann til stéttarfélagsins til að verja sín réttindi

Það var alls ekkert deilt um rétt fyrirtækisins til að segja starfsmanninum upp einungis að fyrirtækið skuli hafa svipt  hann uppsagnarfrestinum sem hann hafði áunnið sér. Þessu til viðbótar var því komið rækilega á framfæri við dóminn að ekki hafi verið neinn ráðningarsamningur gerður við starfsmanninn né leigusamningur og honum kastað út á götuna atvinnulausum og án húsnæðis.

Fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega koma alls ekki svona fram við starfsfólk sitt þótt því verði á og það í frítíma sínum enda liggur eins og áður sagði engin sönnun fyrir því að hann hafi nokkurn tímann brotið af sér í starfi né verið undir áhrifum fíkniefna við störf sín. Sönnunarbyrði liggur öll á herðum vinnuveitenda að sanna slíkt enda hefði vinnuveitandinn átt að senda starfsmanninn í blóðprufu hafi rökstuttur grunur verið um slíkt.

Það er dauðans alvara að segja upp starfsfólki svo ekki sé talað um þegar því er hent á götuna og svipt uppsagnarfresti vegna atvika sem gerast í þeirra frítíma enda er það mat félagsins að slíkt sé algerla andstætt lögum og vinnurétti.

Það verður fróðlegt að sjá dómsniðurstöðu í þessu máli en það er skylda félagsins að reyna að verja réttindi sinna félagsmanna þegar við teljum að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna en dómur í þessu máli mun liggja fyrir eftir ca fjórar vikur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image