• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jan

Starfsmenn GMR fá þrjár milljónir vegna uppsagnarfrests

Eins og ætíð þegar fyrirtæki verða gjaldþrota þá kemur það í hlut stéttarfélaganna að verja áunnin réttindi sinna félagsmanna. 

Þessi réttindi lúta yfirleitt að því að tryggja að starfsmenn fái öll þau vangreiddu laun sem þeir eiga inni og þann uppsagnarfrest sem þeir hafa áunnið sér samkvæmt gildandi kjarasamningum.

Í þessari viku náði félagið að ganga frá greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa á uppsagnarfresti til handa starfsmönnum sem störfuðu hjá GMR Endurvinnslufyrirtækinu á Grundartanga en fyrirtækið varð gjaldþrota 1. febrúar 2017. Heildargreiðslan til þeirra starfsmanna sem áttu rétt á launum í uppsagnarfrestinum nam rétt tæpum 3 milljónum og hefur þeim greiðslum nú verið komið til starfsmanna.

Hinsvegar er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert athugasemdir við útreikning frá skiptastjóra á uppsagnarfresti starfsmanna vegna þess að skiptastjóri tók ekki tillit til þess að starfsmönnum var sagt upp störfum 25. janúar 2017 og því vantaði fjóra daga upp á kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest að mati VLFA . Það er því mat félagsins að það vanti um eina milljón til að uppfylla greiðslur vegna uppsagnarfrests til starfsmanna.

Það er ljóst að mati VLFA að skiptastjóri túlkar uppsagnarfrest í kjarasamningum kolrangt enda miðast uppsagnarfrestur ætíð við mánaðarmót og því áttu starfsmenn GMR rétt til launa frá 25. janúar og uppsagnarfresturinn byrjaði síðan að telja frá mánaðarmótum.

VLFA hefur falið lögfræðingi félagsins að gera kröfu á Ábyrgðarsjóð launa hvað varðar þessa daga sem upp á vantar og málið er nú komið í lögfræðilega meðferð.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir launafólk að geta leitað til stéttarfélaga sinna í málum sem þessum til að tryggja að öllum réttindum sé til haga haldið þegar fyrirtæki verða gjaldþrota.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image